Friday, December 31, 2010

Árið 2010 - Takk fyrir mig!

Þar sem árinu er að ljúka og ég búin að starta nýrri blogsíðu, enn eina ferðina, finnst mér viðeigandi að þakka fyrir árið sem er að líða þar sem það hefur verið sérstaklega skemmtilegt, viðburðaríkt, krefjandi og hressandi! Ég er búin að kynnast ótrúlega frábæru fólki, í vinahópinn hafa bæst dýrmætar manneskjur og svo ekki sé talað um allt skemmtilega samstarfsfólkið sem hefur gert alla þá vinnu sem að baki er eftirminnilega og afkastamikla. Fyrstu mánuðir 2010 fóru að mestu í skólabækurnar enda á lokasprettinum í þroskaþjálfafræði. Ég átti því í ástar/haturssambandi við lokaverkefnið mitt sem að lokum tók enda þrátt fyrir nokkur grá hár, andvökunætur og pirringsköst. Þann 12. júní útskrifaðist ég svo sem þroskaþjálfi og fannst ég sjokkerandi fullorðin. 

 
Mér fannst Ísland afar óspennandi og fór því fjórum sinnum erlendis með endalaust skemmtilegu fólki, áfangastaðirnir voru Manchester, Lancaster, Stokkhólmur og Osló. Þar flutti ég nokkra fyrirlestra, fékk innblástur frá öflugu baráttufólki fatlaðs fólks og fræðafólki innan fötlunarfræða, lærði svo mikið að mig verkjaði í hausinn og þurfti þar af leiðandi að drekka nokkur hvítvíns- og mojito glös til að jafna mig á kvöldin. Allar þessar borgir sluppu nokkuð vel undan komu minni en þó ber að geta þess að nokkrar fata- og snyrtivöruverslanir biðu þess ekki bætur.

 
 
Þegar ég var svo heima átti ég erfitt með að vera til friðs og ferðaðist því talsvert í sumar, m.a. um suður-, norður- og vesturland. Eftirminnilegast var án efa ferðalag mitt á Hornstrandir en þar sem faðir minn deyr ekki ráðalaus fékk hann Landhelgisgæsluna til að ,,skutla” mér á leiðarenda þar sem móðurfjölskyldan dvaldi í Stígshúsi sem Stígur Haraldsson, langalangafi minn, byggði. Þyrla var eina farartækið sem gat yfirstígið allar þær náttúrulegu hindranir sem til staðar eru á þessum slóðum fyrir fólk í hjólastólum og var það TF-LÍF sem á endanum gerði mér það mögulegt að komast í ,,himnaríkið” sem föðurfjölskyldan hefur ótal ævintýralegar sögur af. Það voru því ansi dramatískar móttökur sem ég fékk þegar ég mætti á staðin og er ég ekki enn alveg komin niður á jörðina eftir ógleymanlega flugferð, með ógleymanlegri áhöfn á ógleymanlegan stað. 

Árið endaði ekki í slakari kanntinum þegar ég tók við nýju starfi sem framkvæmdarstjóri NPA miðstöðvarinnar um notendastýrða persónulega aðstoð og var kjörin inn á stjórnlagaþing. ,,Aldrei að segja aldrei” er líklega mest viðeigandi af því tilefni því ég ætlaði sko aaaaaaldrei að verða framkvæmdarstjóri og hvað þá þing e-ð ... en svona er lífið margbreytilegt, óvænt, litríkt og skemmtilegt!

Hér er ansi hratt farið yfir sögu en þó stikklað á því helsta. Það sem eftir situr er þó fyrst og fremst þakklæti til allra þeirra sem á einn eða annan hátt gerðu árið að því sem það varð. Fjölskyldan, vinirnir og aðstoðarkonurnar eiga náttúrlega sérstakar þakkir skildar fyrir að vera til (staðar) hvernig sem viðrar í lífinu, stórir og smáir kosningastjórar sem lögðu mikið á sig við að kynna málefni mín í kosningum til stjórnlagaþings, kjósendur sem treystu mér fyrir fyrirhugaðri vinnu, stjórn NPA miðstöðvarinnar fyrir að ráða mig sem framkvæmdarstjóra, áhöfn TF-LÍF fyrir að láta stóran draum rætast og ferðafélögum ársins sem höfðu misgóð/slæm (eftir því hvernig á það er litið) áhrif á mig og stuðluðu að hlátursköstum sem vörðu svo lengi að ég fékk harðspennur um allan líkamann oft og mörgu sinnum. 

Elsku þið öll; gleðilegt og hamingjuríkt ár og takk fyrir það gamla! Ég hlakka til að toppa þetta ár með ykkur á nýju ári ;)

Kv. Freyja